Hvað er ballet?

Orðið "ballet" tengist sérstakri tækni, sem hefur þróast undanfarin 350 ár. Á balletsýningu muntu sjá dans, sem er settur upp í leikrænu formi. Hreyfing, tónlist og uppsetningin vinnur öll saman til að skapa sýningu fyrir aðdáendur dansins. Dansararnir þurfa ekki orð til að tjá sig fyrir áhorfendur. Margvíslegir danshópar sýna ýmis konar dansverk eftir ólíka höfunda hverju sinni. Sum verkana hafa verið endurtekin í allt að 150 ár af dansflokkum víðsvegar um heiminn. Önnur dansverk eru frumsamin og þá jafnvel fyrir einhvern valinn hóp dansara eða danshópa.

Hvers vegna horfir fólk á ballet?

Fólk horfir á ballet af margvíslegum ástæðum. Það er spennandi að fara í leikhús og sjá lifandi danssýningu. Að horfa á balletsýningu er leið að slaka á frá daglegu amstri og láta sig líða inn í draumaheima dansins. Þetta er tegund af skemmtun sem hefur bein áhrif á tilfinningar fólks í gegnum dansinn, tónlistina og listina sem slíka. Að horfa á ballet er tækifæri til að dást að og njóta stórkostlegrar hæfni mannslíkamans, þar sem dansarinn sýnir okkur líkamlegu þjálfun sína og getu, ásamt leikrænni tjáningu.

Er hægt að leigja hjá ykkur sal?

Já það er hægt. Við Bjóðum uppá þrjá sali, einn í Mjóddinni að Álfabakka 14A og tvo balletsali við Grensásveg 14, annar salurinn er 300m2 og er frábær tl sýninga. Salurinn er með áhorfendabekk sem rýmir fyrir rúmlega 100 manns. Hafðu samband við This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. 

Skólinn og námið

Helstu námsgreinar eru:

• Klassískur ballet (Kennsluaðferðir Royal Academy of Dancing, Vaganova og aðrir stílar)
• Nútímalistdans og Samtímadans (Limon, Graham, Cunningham, Contact, floorwork)
• Spuni
• Listdanssaga
• Danssmíðar
• Þjóðdansar (“character” dans frá ólíkum löndum og íslenskir þjóðdansar)
• Táskór/repertoire (kennt er upp úr þekktum dansverkum og farið í sögu verksins)
• Tvídans (Pas de deux)
• Leikræn tjáning
• Líkamsfræði

Kennsla í klassískum ballet felur í sér munnlega og myndrænar lýsingar á hreyfingum, ásamt sýnikennslu kennara í hverju tilviki. Klassískur ballet er megin undirstaða í listdansnámi. Í balletnámi eru ákveðnar reglur um útfærslu hreyfinga og fagurfræði listgreinarinnar er fastmótuð. Í lýsingum á námi í klassískum ballet er aðallega miðað við niðurröðun spora og æfinga.

Nútímalistdans og samtímadans opnar nemandanum nýja vídd í ólíka dansstíla, sem gefur nemandanum aukinn tilfinningalegan og líkamlegan þroska. Farið er nákvæmlega eftir dansstílum og tækni hvers og eins af þekktustu frumkvöðlum á sviði nútímalistdans, svo sem Limon, Graham, Cunningham, og flr.

Í spuna læra nemendur að virkja sköpunarhæfileika sína; það er engin rétt eða röng leið. Grunnhugmyndin er að eiga samskipti í gegnum hreyfingar, en þó þannig að um sé að ræða öguð og skipulögð vinnubrögð. Í spuna eiga nemendur að fá tækifæri til að rannsaka, prófa, skilja og stjórna hreyfingum.

Táskótækni er sér einkenni klassísks ballets og er eingöngu fyrir kvenndansara (þó kemur fyrir að einstakir karldansarar reyni þá list líka). Æfingar stigþyngjast á kerfisbundinn hátt eftir getu nemenda. Nemendur sem sýna rétta líkamsstöðu og eru komnir með fullnægjandi líkamsstyrk fara á táskó.

Í þjóðdönsum (character dance) læra nemendur íslenska arflegð í dansi og um dansmenningu annarra þjóða. Í þjóðdönsum er krafist nákvæmrar útfærslu dansa, sem dregur fram eiginleika tjáningar hjá nemendum.

Dansverk (repertoire) er hluti af námi í klassískum ballet. Nemendur læra dansa úr þekktum dansverkum, jafnt í klassíksum listdansi og þjóðdönsum. Listdanssögu er fléttað inn í kennslu í dansverkum.

Í tvídans (Pas de deux) er kvenndansarinn á táskóm studd af karldansara. Hér er kennt samspil dansara og margvísleg tækni er varðar snúninga, lyftur og stökk. Hárnákvæm tímasetning og næmt samspil eru lykilatriði.

Leikræn tjáning er mikilvæg í danslistinni. Hvert dansverk felur í sér ólíka tilfinningar sem eru tjáðar bæði í danssporum og látbragðsleik.

Tvídans, líkamsfræði, þjóðdansar og leikræn tjáning verða kennd í formi styttri námskeiða “workshop”.


Inntökuskilyrði og innritun

Engin skilyrði eru fyrir innritun nemenda í forskólanám til níu ára aldurs. Í kennslunni er lagður grunnur að líkamsstöðu og samhæfingu hreyfinga við tónlist.

Innritun í grunnskólanám í klassískum listdansi.

Til að innritast í grunnskólanám í klassískum listdansi þurfa nemendur að gangast undir inntökupróf. Í prófinu er aðallega metin hreyfifærni, tóneyra, samhæfingu og samstarfsvilja nemandans

Innritun í framhaldsbraut í klassískum listdansi.
Til að innritast í nám á framhaldsbraut í klassískum listdansi þurfa nemendur að gangast undir inntökupróf. Í prófinu er aðallega metin hreyfifærni-, tóneyra- samhæfing- og samstarfsvilji nemandans.

Innritun í framhaldsbraut í nútímalistdansi.
Til að innritast í nám á nútímalistdansbraut skulu nemendur hafa lokið grunnskólanámi og hafa stundað nám í dansi í einhverju formi eða búa yfir ótvíræðum danshæfileikum að mati stjórnenda og kennara skólans.

Námið verður auglýst árlega á vordögum, inntökupróf haldin í maí og ágúst, öllum nemendum tilkynnt niðurstaða inntökuprófsins bréflega viku síðar.

Kostnaður

Skólagjald fyrir nemendur má sjá upplýsingar hér

Kennslufyrirkomulag

Námið er skipulagt í samræmi við námskrá menntamálaráðuneytisins í listdansi. Fyrir grunnnám sjá vefslóðina hér og fyrir framhaldsnám sjá hér

Kennslu árið hjá Klassíska listdansskólanum skiptist í haust- og vorönn. Þriggja ára námi í klassískum listdansi gefur 69 einingar og nútímalistdansara 66 einingar að loknu námi hjá Klassíska listdansskólanum. Námsbrautir samsvara Fimmtíu og ein (51) eining á kjörsviði á listnámsbraut, metnar í framhaldsdeild menntaskólanna.
Haustönn

Kennslan fyrir framhaldsdeild hefst 23. ágúst 2010 og lýkur 15 vikum síðar. Sjö fyrstu vikurnar verður farið eftir stundaskrá. Í áttundu vikunni verður hópvinna (“workshop”) og nemendur fá umsögn. Síðan verður ötullega unnið að prófverkefnunum. Síðasta vikan endar með haustprófum. Önnin endar með jólasýningu.

Grunnskóla nemendur byrja í lok ágúst byrjun september. Önnin stendur í 15 vikur. Haustpróf og umsögn er gefin að lokinni önn. Einnig taka grunnskólanemendur þátt í jólasýningu skólans.

Vorönn
Kennslan hefst fyrir bæði framhaldsskólanemendur og grunnskólanemendur fyrsta mánudag í janúar og lýkur fimmtán vikum síðar. Síðasta vikan endar með vorprófum. Skólin heldur veglega balletsýningu á vori hverju í Borgarleikhúsinu. Allir nemendur sem hafa stundað námið ötullega taka þátt í nemendasýningunni. Nemendasýningin er um tveggja tíma dagskrá. Sýningin er samansett af klassísku balletverki, nútímaverki ( Martha Graham eða Cunningham). Einning er sér útskriftar sýning 10 dögum eftir vorsýningu skólans sem einnig sýnir sjálfstæð verkefni nútíma- listdansnemenda.

Kennsluaðstaða skólans

Skólinn hefur yfir að ráða 600 fermetra kennsluaðstöðu að Grensásvegi 14 í Reykjavík. Þetta glæsilega dansstúdíó var tekið í notkun í janúar 2006. Í húsnæðinu eru þrír æfingasalir með speglum á veggjum, balletstöngum og góðum hljómflutningstækjum. Einn þeirra er tæplega 300 fermetrar að stærð með góðri aðstöðu fyrir minni danssýningar og aðra listræna viðburði eða fyrirlestra. Búningsherbergi eru þrjú og eru tveir sturtuklefar og salernisaðstaða í hverju þeirra. Í andyri er setukrókur fyrir nemendur, móttaka og salernisaðstaða. Einnig er skrifstofa, eldhús og búningageymsla.

Skólareglur

Nemendum ber að mæta stundvíslega í allar kennslustundir. Hver árgangur klæðist balletbúning sem skólinn útvegar og er innifalinn í skólagjaldinu. Þannig hefur hver árgangur sinn lit. Einnig eiga stúlkurnar að klæðast bleikum balletsokkabuxum og bleikum mjúkum balletskóm. Drengirnir klæðast svörtum sokkabuxum, hvítum bolum og svörtum balletskóm. Hárið skal vera vel greitt. Öll umgengi skal vera hljóðlát og bera vott um gagnkvæma virðingu og tillitssemi við kennara, aðra nemendur og húsnæði skólans. Öll notkun tyggigúmmís er bönnuð.

  • Í nútíma dansi klæðast nemendur léttum dansbuxum, annað hvort stuttum eða síðum og viðeigandi bolum.

  • Ef nemendur taka með sér nesti þá verður það að vera holl og orkurík fæða.

  • Veikindi ber að tilkynna í síma skólans eða með tölvupósti.

fristundakortid_nytt_hvitt